Skip to main content

Fróðleikur um parket

Ræsting og viðhald


Hvernig á að þrífa parketgólf

 

Lakkað parket og trégólf

Daglega er best að þrífa með þurrþveglum eða ryksuga. Ef ryksuga er notuð þarf að gæta þess að burstinn sé heill og óskemmdur. Öðru hverju er nauðsynlegt að þvo gólfið. Það er óhætt að bleyta parketið, en varast ber að hafa tuskuna rennandi blauta og þurrka fljótt á eftir. Gætið þess, að á lakkað parket á aðeins að nota sápur sem ætlaðar eru fyrir lökkuð parketgólf, WOCA lakksápan (Vinyl and lacquer soap) frá Parka hentar mjög vel. Ekki skal nota feitar sápur sem ætlaðar eru á lútuð eða olíuborin viðargólf til að þrífa lakkað parket. Þannig sápur skilja eftir sig fituhúð á gólfinu þannig að það lítur út fyrir að vera óhreint.  Fáið rétta sápu hjá Parka á Dalvegi 10-14.

Olíuborið parket og trégólf

Olíuborið parket ætti helst ekki að þvo fyrsta mánuðinn eftir að það hefur verið olíuborið. Vitaskuld getur þurft að þvo fyrr en þá skal gæta þess að nota eins lítið vatn og mögulegt er og helst ekki sápu. Daglega er best að þrífa með þurrþveglum eða ryksuga. Ef ryksuga er notuð þarf að gæta þess að burstinn sé heill og óskemmdur. Öðru hverju er nauðsynlegt að þvo gólfið. Það er óhætt að bleyta olíuborið parket eftir fyrsta mánuðinn, en varast ber að hafa tuskuna rennandi blauta og þurrka fljótt á eftir. Olíuborið parket á aðeins að þvo með feitum sápum sem sérstaklega eru framleiddar fyrir olíuborin eða lútuð parketgólf. Gætið þess að nota aldrei sterka sápu eða hreingerningarlög á olíuborið parket. Gæta þarf þess að endurolíubera eða vaxbera olíu/vaxborin parketgólf. Til að lengja tíma á milli olíuburðar á parket mælum við eindregið með sápu með olíu í (Oil Refresher).  Hjá okkur fáið þið svo allt sem til þarf.

Spurningar og svör um parket

Eftirfarandi spurningar koma oft fram í sambandi við parket og parketviðhald.

Gamla parketið mitt er orðið svo ljótt, það eru komnir í það svartir blettir. Er það ekki orðið ónýtt?
Ef blettirnir stafa af því að lakkið er slitið af og óheinindi hafa litað efsta borð viðarins þá hverfur það í langflestum tilfellum við slípun. Ef blettirnir stafa hins vegar af því að vatn hefur komist undir parketið, t.d. við leka, getur þurft að skipta um þann hluta af gólfinu sem er skemmdur. Parki mælir ávallt með því að fá fagmann í verkið.

Fer ekki allt á kaf í ryk þegar ég læt slípa parketið?
Allir alvöru parketmenn nota vélar sem ryka mjög lítið. Ef hugsað er um að tæma rykpokann oft þá rykast lítið. Þó geta verið þær aðstæður að ekki verði komist hjá ryki t.d. slípun á stiga eða þar sem mjög þröngt er og pokarnir rekast í veggina. Við venjulegar aðstæður kemur hins vegar lítið ryk.

Mig langar til að breyta um lit á parketinu, er það hægt ?
Það er auðvelt að bæsa parketið ef þess er óskað með parketbæsi. Hægt er að lakka eða olíubera ofan á bæsinn.

Hvort er betra sem yfirborðsmeðhöndlun á parketi, olía eða lakk?
Hvort tveggja er gott. Lakkað gólf þarf oftast nær ekki að hugsa um að endurlakka fyrr en eftir u.þ.b. fimm til tíu ár á íbúðarhúsnæði en mun oftar ef um er að ræða dansgólf eða gólf á verslunum og vinnustöðum. Olíuborið gólf þarf oftast nær að endurolíubera á hálfs- til tveggja ára fresti. Olíuborin gólf henta illa þar sem berst inn mikil bleyta eða oft þarf að þvo.

Ef ég læt olíubera parketið get ég þá skipt um skoðun og látið slípa og lakka?
Já, flestar hefðbundnar parketolíur er hægt að slípa af og lakka í staðinn.

Hve oft er hægt að slípa spónlagt parket?
Flestar gerðir af spónlögðu parketi eru með 3,5 – 4 mm spón. Það er alltaf hægt að slípa tvisvar, stundum þrisvar.

Eru leysiefnasnauð lökk (vatnslökk) jafngóð og þynnislökk (poly-úreþan)?
Já, flestar gerðir af leysiefnasnauðum lökkum jafngóðar og þynnislökk. Vatnslökk eru oft áferðarfallegri og slitþolið er oftast nær svipað eða jafngott. Athugið að mikilvægt er að nota réttan hreingerningalög frá WOCA.

Hvort er betra, venjulegt parket eða gegnheilt?
Hvort tveggja hefur sína kosti. Venjulegt spónlagt parket er fljótlegt að leggja, endist vel og þarf í flestum tilfellum ekki að lakka eftir lögn, þ.e.a.s. kemur fullmeðhöndlað. Gegnheilt parket er “orginal” parket, samskonar og lagt hefur verið á allar meiriháttar byggingar í margar aldir. Úreldist seint, fer aldrei úr tísku og hægt að slípa oft en tekur mun lengri tíma í lögn. Þú getur valið úr ótal viðartegundum, yfirborðsmeðhöndlun og mynstrum.

Harka viðartegunda

Hörkutafla – nokkrar algengar viðartegundir. Janka skali – pund á fertommu (PSI)

Hörkutafla – nokkrar algengar viðartegundir. Janka skali – pund á fertommu (PSI)

Tafla um samanburð loftraka og viðarraka

Prósentutölurnar sýna loftraka. Tölurnar fyrir neðan sýna samsvarandi raka í parketi við sama loftrakastig. Tölurnar eru miðaðar við norður-ameríska hvíta eik.

Loftraki samanborið við viðarraka 20 gr. C.

20% 25% 30% 35% 40% 45% 50% 55% 60% 65% 70% 75% 80%
4,6 5,5 6,3 7,1 7,9 8,7 9,5 10,3 11,2 12,3 13,4 14,8 16,4

Til athugunar áður en gegnheilt gólf er lagt

Þegar leggja skal gegnheil plankagólf er mjög mikilvægt að öllum leiðbeiningum sé fylgt út í æsar. Þeir sem vilja leggja á sig það aukaumstang sem því fylgir að leggja gegnheil gólf, fá í staðinn tilfinninguna fyrir því að vera með alvöru gólf sem getur enst í margar aldir. Parki mælir með fagmönnum í verkið.

Veðurfar og loftraki

Gegnheill viður er lifandi efni sem dregst saman eða þrútnar út við mismunandi rakastig. Meðalloftraki á Íslandi er frekar lítill miðað við suðlægari breiddargráður. Meðalraki á veturna í íbúðarhúsnæði er í kringum eða undir 40% en á sumrin rúmlega 50%. Á sumrin í rigningartíð getur loftrakinn farið uppí 60 – 80% en í frostaköflum á veturna getur hann farið niður í 20 -30%. Sem betur fer tekur það viðinn þó nokkurn tíma að taka til sín eða losa sig við raka og sjaldan standa svona öfgar í veðrinu mjög lengi í einu. Hafa skal einnig í huga að því breiðari sem plankarnir eru, því meiri verður breiddarmunurinn á plönkunum við breytingar á loftraka. Rakabreytingarnar í viðnum er hægt að minnka verulega með því að passa vel að olíubera gólfin eða lakka. Einnig hjálpar rakasperra undir gólfinu mikið. Nauðsynlegt getur verið að hafa rakatæki í gangi yfir þurrasta tímann á veturna, það er ekki aðeins gott fyrir gólfið, heldur ekki síður íbúa hússins. Aldrei er þó hægt að koma alveg í veg fyrir hreyfingu í viðnum, það geta komið rifur á milli borða á veturna sem lokast svo venjulega á sumrin. Þetta gefur gólfinu ákveðin karakter sem eykur á gildi þess.

Áður en plankagólfið er lagt

Aðalatriðið er að rakinn í viðnum passi við rakastigið í húsinu þar sem á að leggja gólfið. Plankarnir okkar eru þurrkaðir í 8,0% (+/- 2,0%), sem samsvarar u.þ.b. 45% loftraka. Mikilvægast er því að vera viss um að allar aðstæður, þar sem leggja á gólfið, séu eins og best verður á kosið. Því er nauðsynlegt að eftirfarandi atriði séu í lagi. Áður en gólfið er lagt er nauðsynlegt að húsið hafi verið upphitað með jöfnum hita 20 – 22° í a.m.k. 6 vikur. Einnig að öllu múrverki og steypuvinnu hafi verið lokið fyrir þann tíma, frágangur glugga og hurða sé endanlegur og loftrakinn sé að meðaltali milli 40 og 50%. Ef líma á gólfið niður á steypu eða flot þarf að vera öruggt að allur raki sé horfinn úr undirgólfinu. Algengt er að það taki 8 – 12 mánuði fyrir steypt gólf að fullþorna. Ef vafi leikur á því hvort steypan/flotið hafi fullþornað skal rakamæla gólfið. Ekki er hægt að treysta venjulegum viðnámsrakamæli í öllum tilfellum og er því best að láta RB (Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins) eða sambærilegan aðila rakamæla gólfið. Ef ætlunin er að leggja plankana á gólfbita eða krossvið/spónaplötur er best að nota þolplast sem rakasperru undir gólfið. Við mælum með því að nota einnig rakasperru (poly-úreþan eða epoxý) á steypt gólf þó að þau séu orðin þurr. Það minnkar hættuna á hreyfingu í viðnum. Það er einnig mikilvægt að undirgólfið sé slétt. Til að mæla hvort gólfið sé nógu slétt skal leggja 2 metra réttskeið á gólfið. Það á ekki að vera meira en 1,5 mm hæðarmunur á 2 metrum. Ef munurinn er meiri þarf að flota eða fræsa niður hryggi. Ef líma skal parketið niður er ekki síður mikilvægt að yfirborðið á steypunni sé sterkt. Best er að gera prufur með því að líma niður búta af plönkum á nokkrum stöðum á gólfinu, láta harðna yfir nótt og rífa síðan upp. Það á að vera mjög erfitt að ná bútunum upp og ef límingin er góð kemur hluti af pússningunni/flotinu með. Mikilvægt er að límið sem notað er sé til þess ætlað að líma plankagólf. Fáið umsögn frameiðanda/seljanda. Notið aldrei lím sem inniheldur vatn. Alltaf skal vera a.m.k. 15 mm bil við alla veggi, súlur eða aðrar fastar hindranir. Þetta gildir um öll trégólf. Sé gólfið breiðara en 8 metrar skal mynda þenslurauf sem er a.m.k. 1 mm fyrir hvern metra gólfs.

Lögn á bita (lektur).

Ef lagt er á lektur skulu lekturnar vera minnst 50 x 60 mm úr valinni þurrkaðri furu. Ef lekturnar geta ekki verið í einu lagi skulu samskeytin vera löskuð á báðum hliðum og límd saman. Fjarlægð á milli bita skal ekki vera meira en 60 cm í íbúðarhúsnæði en 40 cm eða minna í atvinnuhúsnæði. Lekturnar eru síðan stilltar í hæð með fleygum sem bæði límast og neglast. Ef lagt er á bita getur þurft að hefla niður hæðir eða bæta á til að jafna hæð bitanna. Hæðarmunur má ekki vera meiri en 2 mm á 2 metrum. Plankarnir eru síðan skúfaðir með Monta-flex skrúfum t.d. 4,2 x 50 – 70 mm eða sambærilegum. Skrúfa skal í hverja lektu/bita. Gæta skal þess að aldrei séu endasamskeyti hlið við hlið í sama lektu/bita bili. Aldrei má líma plankana saman í nót og tappa. Mikilvægt er að bitar/lektur hafi sama rakastig og plankarnir. Leggja skal rakasperru ofan á bitana og undir gólfið (þolplast 0,20).

Lögn á gamalt trégólf.

Ef ætlunin er að leggja planka á trégólf sem fyrir er skal leggja plankana þvert á stefnu gólfsins sem fyrir er. Ef það er af einhverjum orsökum æskilegt að nýja gólfið hafi sömu stefnu og það gamla skal leggja 12 mm krossvið ofan á gamla gólfið og skrúfa niður. Millibil á milli skrúfa skal ekki vera minna en 40 cm. Að sjálfsögðu skal gæta þess að ekki séu mishæðir á undirgólfinu sem eru yfir 2 mm á 2 metrum. Plankarnir eru síðan skrúfaðir á sama hátt og ef um lögn á lektur/bita væri að ræða. Fylgið leiðbeiningunum hér að neðan hvar byrja skal lögnina. Ef gólfið er breiðara en 4 metrar skal byrja eins og að neðan er sýnt. Ef gólfið er mjórra má byrja við annan vegginn og leggja allt gólfið í sömu átt.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lögn á spónlögðu parketi/harðparketi og vínyl

Sjá leiðbeiningar viðkomandi framleiðanda á pakkningum og á heimasíðum: Meister.com, parador.de, krono-originial.com, www.ivcfloors.com, novalisinnovativeflooring.com.